Íslenski fáninn. Stolt þjóðar og þjóðararfur.

Birt: 02/03 2010

Íslenski fáninnÞjóðfáni okkar er mikið prýði og einkennir okkur íslendinga á erlendri grund sem og hér heima. Falleg fánastöng með íslenska fánann dregin að hún er hvers manns prýði. Og hver þekkir það ekki að líta við, þegar ferðast er erlendis og við sjáum þjóðfána okkar blasa við. Oftast brosir hjartað okkar eilítið við það. Á kappleikjum hér heima og erlendis er gott að horfa á fánalitina og fyllir mann elju að sama skapi.


En fánann okkar ber að fara með virðingu og stolti. Hér að neðan er farið í fánareglur okkar, meðferð fánans, fánadaga og fróðleik um liti fánans og hvaða reglur gilda með fánaveifur og vimpla.


Fáninn okkar er svokallaður krossfáni eins og fánar allra hinna Norðurlandanna. Hann er heiðblár með mjallhvítum krossi og eldrauðum krossi innan í hvíta krossinum. Hlutföllin í litum fánans eru, talið lárétt frá stöng: 7-1-2-1-14, en lóðrétt meðfram stöng eru þau 7-1-2-1-7. Þannig er breidd fánans 18/25 af lengd stangar hans samkvæmt 1. grein fánalaga.


Samkvæmt fánalögum verða allir fánar dregnir á fánastöng að vera í góðu ástandi, lögreglan má gera upptæka alla fána sjáanlega á opinberum stöðum sem ekki samræmast íslenskum fánareglum. Ströng lög gilda um þá virðingu sem sýna ber þjóðfána Íslendinga og getur það varðað sektum eða fangelsi allt að einu ári að brjóta fánalögin.


Litirnir í íslenska fánanum tákna fjallablámann, ísinn og eldinn en það virðist útbreiddur misskilningur að blái liturinn tákni annað hvort hafið sem umkringur landið eða vötnin sem eru á landinu sjálfu. Hann táknar í raun fjallablámann en rauði liturinn táknar eldinn í iðrum landsins og sá hvíti ísinn á toppum þess.


Fánareglur fyrir íslenska fánann

Þegar ákveðið er að versla fána og stöng þarf að hafa í huga reglur um íslenska fánann. Það þarf að vera rétt hlutföll fána og stangar, fánatími og ákveðnir fánadagar er tilgreindur í lögum, hvernig skal draga fána í hálfa stöng og síðast en ekki síst meðferð fánans. Vel með farinn íslenskur fáni er jú stolt okkar og berum við skyldur gagnvart honum ekki síður en skyldur til samfélagsins í heild.


Nú skulum við draga fram útskýringar á fánareglum.


Hlutföll fána og stangar.

Það er æskileg viðmið að lengd fánastangar sé 5 sinnum breidd fánans þegar stöngin er reist fá jörðu, 3 sinnum breidd fánans ef stöngin er á húsþaki, 2 1/2 sinnum breidd fánans ef hún er skáhalt út frá húsvegg. Stöng sem myndar rétt horn við húsvegg er tvöföld að breidd fánans. Fánastengur skulu vera einlitar.


Fánatími


Ekki skal draga fána á stöng fyrr en klukkan sjö að morgni og skal hann að jafnaði ekki vera lengur uppi en til sólarlags, og aldrei lengur en til miðnættis. Ef flaggað er við útisamkomur, opinberar athafnir, jarðarfarir eða minningarathafnir, má fáni vera uppi lengur en til sólarlags eða svo lengi sem athöfn varir en þó aldrei lengur en til miðnættis. Það er öllum heimilt að nota hinn almenna þjóðfána enda sé farið að lögum og reglum sem um hann gilda. Fánann má nota við öll hátíðleg tækifæri, hvort sem er í einkalífi eða ekki eða á sorgarstundum. Þá skal draga fánann í hálfa stöng. Það er æskilegt að almenningur dragi íslenska fánann á stöng eftirtalda daga en samkvæmt úrskurði forseta íslands frá 23. janúar 1991, skal draga fána á stöng eftirtalda daga við opinberar byggingar / stofnanir.


1.  Fæðingardag forseta íslands

2.  Nýársdag

3.  Föstudaginn langa

4.  Páskadag

5.  Sumardaginn fyrsta

6.  1. maí

7.  Hvítasunnudagur

8.  Sjómannadagur

9.  17. júní

10. 1. desember

11.  Jóladag

Á þessum fyrrgreindum dögum skal draga fána að hún, nema á föstudaginn langa, þá skal draga í hálfa stöng.


Fáni í hálfa stöng


Þegar draga á fána í hálfa stöng er hann fyrst dreginn að hún og síðan felldur þannig að 1/3 hluti stangarinnar sé fyrir ofan efri jaðar fánans. Við jarðarför eða aðra sorgarathöfn skal fáninn dreginn að hún þegar athöfninni er lokið og skal fáninn blakta þar til fánatíma lýkur.


Meðferð fánans


Alltaf skal gæta þess þegar fáni er dreginn á stöng eða dreginn niður, að hann snerti ekki jörð, vatnsyfirborð eða gólf. Fánalína þarf að vera strengd svo að fánajaðar liggi ávallt við stöng. Alltaf skal ganga frá fána eftir notkun. Þá er hann brotinn í fernt eftir endilöngu og vafinn upp þannig að einungis blái liturinn snúi út og línan hnýtt utan um fánann. Fáninn skal ávallt geymdur á öruggum stað.

Ef fáni hefur blotnað skal þurrka hann áður en hann er brotinn saman til geymslu. Þegar fáni á stöng er hafður við altari, ræðustól eða ræðuborð, á leiksviði eða þessháttar, skal hann ávallt vera vinstra megin séð frá áhorfanda.

Séu fánarnir tveir skulu þeir vera sitthvoru megin. Aldrei má sveipa þjóðfánanum utan um ræðustól né að hafa hann framan á ræðustól. Ekki má nota fánann til að sveipa utan um hlut sem á að afhjúpa t.d styttu eða hverskonar annan hlut. Aldrei má nota þjóðfánann sem borðdúk eða gólfábreiðu. Þegar íslenski fáninn er í röð annarra þjóðfána, skal sá íslenski vera lengst til vinstri séð frá áhorfenda eða þegar komið er að fánastað. Öðrum fánum skal raða frá hægri íslenska fánanum í stafrófsröð eftir íslenskum heitum hluteigandi ríkja. Ef þjóðfánanum sé hvirfilraðað, má íslenski fáninn vera í miðju milli hinna fánanna. Ef ekki er hægt að draga alla fánana samtímis skal draga þann íslenska upp fyrst og síðast niður. Ekki má setja fleiri en einn íslenskan fána í hverja röð. Ef íslenski fáninn sé í röð annarra en þjóðfána skal hann vera til vinstri séð frá áhorfenda. Það má ekki raða merkjum, fánum sveitafélaga, fyrirtækja eða auglýsingafánum inn á milli þjóðafána ( í fánaborg). Slíkir fánar skulu hafðir í röðum eða þyrpingum aðskildir frá þjóðfánum. Heimilt er ef heiðra skal við sérstakt tækifæri ákveðna erlenda þjóð eða miliríkjastofnun að hafa fána slíkst aðila milli íslenska þjóðfánans og þess þjóðfána sem ætti að vera honum næstur. Það má aldrei vera með tvo þjóðfána á sömu stöng. Þegar hengja á íslenska fánann og erlendan þjóðfána á vegg á stöngum sem liggja í kross, skal íslenski fáninn vera til vinstri séð frá áhorfenda og stöng hans yfir stöng hins fánans.

Þegar þjóðfáni er sveipaður líkkistu skal krossmarkið vera við höfuðlag og skal leggja neitt ofan á fánann. Hvorki má kasta rekunum í fánann né láta hann síga niður í gröf.

Ekki skal draga fána á stöng sé hann upplitaður, óhreinn, trosnaður eða skemmdur að öðru leyti. Skemmdan fána ber að lagfæra strax, að öðrum kosti skal hann ónýttur með því að brenna hann.


Fánaveifur eða vimplar

Ekki gilda neinar reglur um fánaveifur eða vimpla að öðru leyti en að ætið skal nota rétta fánaliti í þær. Réttu fánalitir eru “heiðblár, eldrauður og mjallhvítur”

eða samkvæmt aljóðalegum staðli SCOTDIC – litastiganum;


SCOTDIC nr. 693009 (heiðblár)


SCOTDIC nr. 95. (mjallhvítur)


SCOTDIC ICELAND FLAG RED. (eldrauður)

Þetta litakerfi er eingöngu átt við í vefnaði.


Í CMYK kerfi er notað;


Blár: CMYK 100-69-0-11.5


Rauður: CMYK 0-94-100-0


Hér er hægt að lesa um sögu fánans


Hér er íslenski fáninn á Ellingsen.is


Starfsfólk Ellingsen afgreiðir fána og fánastangir með stolti og virðingu og hvetur viðskiptavini að flagga þjóðfánanum hvenær sem tilefni er til.

Ásbjörn Þór Ásbjörnsson


Skrifa athugasemdir